Sjálfstæðisfélag Hvergerðis, Bláhver 2024
SJÁLFSTÆÐISFÉLAGIÐ Í HVERAGERÐI 13 Kæru bæjarbúar, Það er bara allt gott að frétta af félaginu okkar. Það er vissulega þrengt að okkur hvað varðar fjármagn og húsakost og ýmislegt annað en það er allt gott að frétta af okkur í Hamri. Við erum svo einstaklega velmönnuð fólki, hugsjónafólki sem lætur ekkert setja sig af leið. Starfið innan Hamars hefur styrkst mikið á árinu með betra og markvissara innra starfi. Því er að þakka nýjum framkvæmdastjóra sem hefur nú starfað í tæpt ár þegar þetta er skrifað. Starfið út á við og inn í deildirnar nýtur góðs af því að einhverju leyti nú þegar og að fullu þegar Íþróttafélagið Hamar verður orðið eitt af fyrirmyndafélögum Íþrótta og Ólympíusambands Íslands. Þangað er vegferðin hafin. Til að geta orðið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ þarf að taka allt innra starf félagsins til gagngerrar endurskoðunar. Þetta er í raun eitt stórt gæðakerfi þar sem allt er talið til. Það er horft til þjálfunar og markmið með tilliti til aldurs, stefnumótunar, viðbragðs við óvæntum atvikum og mjög margt annað. Sjálfboðaliðastarfið fær ákveðinn ramma til að vinna innan og handbækur fyrir starf hverrar deildar verða til, þar sem hlutverk hvers og eins er skilgreint og markmiðmeð starfinu tíundað. Þegar liggur fyrir uppkast að handbók aðalstjórnar til samþykktar á næsta aðalfundi og á henni eru svo handbækur allra deilda byggðar. Með þessu er hægt að halda áfram á þeim grunni sem þeir sem á undan komu byggðu. Reynslan helst innan félagsins og árangur verður næstum öruggur í því sem við erum að gera. Hvað er árangur? Er það gullmedalía og bikar í öllum keppnum? Er það öflugt yngri flokka starf þar sem allir fá verkefni við sitt hæfi og læra að til að ná árangri þarf að leggja á sig smá og stundum mjög mikið erfiði? Er það samvera með vinum í leik barna þar sem gleðin ræður úrslitum? Fyrir mér er þetta allt saman árangur. Hvernig metum við árangur? Þegar að kemur að keppni fullorðinna í meistaraflokkum þá er árangurinn metinn eftir fjölda sigurleikja. Það á bara alls ekki við í keppni og leik yngri flokka. Að mínu mati er árangur yngri flokka hversu margir skila sér á æfingu. Hvernig við erum að kenna krökkunum okkar verkefnið að spila íþróttina þeirra. Ef það er gaman og jafnvel það skemmtilegasta sem er í boði fyrir krakkana erum við búin að vinna. Sama hvernig á það er litið. Það lítur út fyrir bjartari tíma í aðstöðumálum félagsins. Þriðji veturinn er hálfnaður nú þegar og svo þröngt er um starfið að ekki hefur reynst mögulegt að halda úti eðlilegu starfi. Við þröngt mega sáttir sita var sagt hér áður en svo þröngt er orðið að það geta ekki allir setið, hvorki sáttir né ósáttir. Bærinn okkar vex og dafnar og það þarf að hafa í huga að félagið okkar Hamar vex í jöfnu hlutfalli. Við viljum geta boðið upp á bestu mögulegu þjálfum við bestu mögulegu aðstæður hverju sinni. Það er okkar markmið og hefur alltaf verið. Við höfum verið ansi treg til að gefa nokkurn afslátt af því. Bygging gervigrasvallar er vel á veg komin og nú, þegar þetta er skrifað, er vinna bygginganefndar viðbyggingar við íþróttahúsið við Skólamörk í fullum gangi. Þar eigum við tvo fulltrúa og þar er unnið virkilega gott starf. Við höfum þar rödd og á okkur er hlustað og ég hef tröllatrú á því að þessum mestu erfiðleikum sem félagið hefur nokkurn tíma gengið í gegnum fari nú að ljúka. Þó ekki alveg strax en það sér fyrir endann á þeim. Fyrir hönd íþróttafélagsins Hamars óska ég öllum bæjarbúum, styrktaraðilum og sérstaklega iðkendum og sjálfboðaliðum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Án ykkar væri Hamar ekki til. F.h. Íþróttafélagsins Hamars í Hveragerði, Þorsteinn T Ragnarsson Formaður Hátíðarkveðja frá Íþróttafélaginu Hamri
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==