Áramótablað Hjálparsveiar Skáta í Kópavogi

58 ÁRAMÓTABLAÐ HSSK 2022 F jórtán meðlimir HSSK tóku þátt í metnaðarfullri flugslysaæfingu Almannavarna og Isavia sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 1. október síðastliðinn. Á æfingunni var æfður viðbúnaður við því að tvær flugvélar hefðu skollið saman á vellinum. Sextíu voru slasaðir og eldur logaði. Þrír hópar frá HSSK mættu klukkan tíu að morgni á bílastæðið við Háskólann í Reykjavík, þar sem viðbragðsaðilar söfnuðust saman. Tveimur vikum áður hafði HSSK staðið fyrir endurmenntun í fyrstu hjálp, námskeið sem gagngert var haldið til undirbúnings æfingarinnar. Vettvangsstjórar úthlutuðu hverjum hópi verkefnum áður en þeir hleyptu þeim inn á slysstað. Hópunum voru valin verkefni með tilliti til þess búnaðar sem þeir höfðu meðferðis, fjölda meðlima í bíl og þeirrar þjálfunar sem einstaklingar innan hópsins bjuggu yfir. Ólík hlutverk Hóparnir þrír frá HSSK fengu ólík hlutverk á æfingunni. Einn hópurinn flutti slasaða frá slysstað en þar hafði fyrsta mat viðbragðsaðila á meiðslum hinna slösuðu farið fram. Hópurinn flutti þá á söfnunarsvæði slasaðra þar sem annar hópur HSSK tók við þeim og endurmat alvarleika meiðslanna. Þriðji hópurinn hlúði að þeim sem minnst voru slasaðir og gætti þess að þeir yfirgæfu ekki vettvanginn. Mikilvægt er við aðstæður sem þessar að halda stjórn á vettvangi. Þess má geta að margir þeirra sem léku slasaða einstaklinga voru afar sannfærandi í hlutverkum sínum og voru til að mynda með förðun, gerviblóð og umbúðir í samræmi við þá áverka sem þeir höfðu átt að hljóta. Mikil alvara einkenndi því vettvanginn enda mikilvægt að nýta æfingu sem þessa til hins ítrasta og prófa þá verkferla sem kenndir hafa verið á námskeiðum við eins raunverulegar aðstæður og unnt er að skapa. Þjálfaðir til að vinna með öðrum Æfingin var metnaðarfull og gaf þátttakendum ekki síst færi á að sjá og meta hvernig þeir sjálfir bregðast við í aðstæðum sem þessum. Æfingin varpaði ekki síður ljósi á mikilvægi björgunarsveita við flóknar og erfiðar aðstæður. Innan raða sveitanna er fólk sem býr yfir sérhæfðri þekkingu sem er ómetanleg við aðstæður sem þessar. Þar má til dæmis nefna sjálfboðaliða með heilbrigðismenntun. „Hópslys kalla á aukið viðbragð í almannavarnakerfinu því slíkir atburðir setja meira álag á daglegt viðbragð en kerfinu er ætlað að ráða við,“ sagði Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörgu í tilkynningu vegna æfingarinnar. „Þar koma sjálfboðaliðar sterkir inn því þeir eru sérþjálfaðir til þess að vinna samhliða öðrum viðbragðsaðilum og taka því kúfinn af því sem er umfram viðbragðsgetu kerfisins,“ sagði hún enn fremur. Æfingin stóð yfir í um tvær klukkustundir og tókst afar vel. Að æfingu lokinni fór fram rýni með hverjum hópi, þar sem æfingin var rædd og farið var yfir hvað betur hefði mátt fara. Auk Almannavarna og Isavia tók starfsfólk Reykjavíkurflugvallar þátt í æfingunni sem og Landhelgisgæslan, Rauði krossinn og fleiri aðilar. Um 300 manns tóku þátt í æfingunni. Hulda Ösp Atladóttir Æfðu viðbrögð við alvarlegu flugslysi MYNDIR: ÞORSTEINN JÓNAS SIGURBJÖRNSSON

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==