Áramótablað Hjálparsveiar Skáta í Kópavogi

70 ÁRAMÓTABLAÐ HSSK 2022 græja akkeri þá klifruðum við upp eitt í einu. Andrea fyrst, svo ég og að lokum Siggi. Ísinn var alveg lóðréttur og ekki mörg tækifæri til að hvíla sig á leiðinni. Það má segja að fossinn hafi ekki verið klifraður þegjandi en nokkur vel valin íslensk blótsyrði fengu að hljóma um gilið á leiðinni upp. Eftir kertið komu tveir hlutar af klifri sem voru mjög þægilegir og svo gengum við niður fjallið í bröttum skógi. Sjötti dagurinn var næstsíðasti klifurdagurinn okkar og vildum við öll klifra saman í svokölluðu „social“ klifri þar sem síðustu daga höfðum við alltaf tvístrað hópnum og tekið fjölspanna klifur. Við fórum í fyrsta sinn í Valnontey dalinn að klifra og gengum í um 40 mínútur að fossinum sem við vildum klifra. Fossinn er breiður og aðeins eins spanna, kallast Thoule og er WI3+. Þar gátum við sett upp nokkrar klifurleiðir hlið við hlið og klifrað öll saman í sólinni. Dagurinn fór þó ekki eins og áætlað var. Eftir hádegi var farið að hlýna mjög mikið og við vorum farin að tala um pakka saman og koma okkur í burtu þar sem sól var farin að skína á fossinn. Eins og þruma úr heiðskíru lofti hrundi þó nokkuð af ís fyrir ofan okkur á hópinn. Steph stóð beint undir þar sem mest af ísnum lenti og datt hún í átökunum og braut á sér framhandlegginn og fékk höfuðhögg. Flestir aðrir fengu eitthvað af ís á sig eða til sín og þegar við sáum að Steph var slösuð fóru allir strax í stellingar að hjálpa henni. Ég og Andrea fórum í það að búa um handlegginn á henni í spelku og fatla og tryggja hana í brekkunni. Jón Haukur klifraði upp fossinn til að sækja öll akkerin sem við vorum með efst í fossinum. Strákarnir fóru strax í að setja upp akkeri í næsta tré til þess að Steph gæti verið tryggð í línu á leiðinni niður. Landslagið var bratt og stórgrýtt en sem betur fer gat Steph gengið niður með okkar aðstoð. Andrea hringdi svo í ítölsku neyðarlínuna til að fá sjúkrabíl en eftir að hafa útskýrt slysið og áverkana vildu þeir sækja Steph á þyrlu. Tímasetningin gat varla verið betri en þegar við komum gangandi niður á flatann kom þyrlan fljúgandi inn dalinn. Frá því að ísinn hrundi á okkur og þangað ti Steph var komin inn í þyrlu voru um 45 mínútur. Lærdómurinn af þessu slysi var að klifra ekki í eins mikilli sól og við gerðum þennan daginn. Þetta er eitthvað sem við þekkjum illa á Íslandi en yfirleitt ísklifrar maður skuggamegin í fjallinu í skammdeginu. Hinn lærdómurinn var að ferðast alltaf í góðum hópi sem er tilbúinn að bregðast við slysum eins og þessum. Seinna um daginn sóttum við Steph á sjúkrahúsið í Aosta og ákváðum að keyra hana til Genf í Sviss þar sem hún þurfti að fara í aðgerð á beinbrotinu sem fyrst. Steph er hálf svissnesk og á frændfólk í Genf og því var það besta planið. Síðasta dagurinn okkar hinna á Ítalíu fór því ekki í ísklifur þar sem við vorum ekki í stuði fyrir það eftir slysið. Við fórum í staðinn á safn í gömlum kastala og slökuðum á. Morguninn eftir flugum við heim til Íslands frá Mílanó, ánægð með að Steph væri í góðum höndum í Sviss og að það fór ekki verr í íshruninu og einnig ánægð með klifur ferðarinnar. Í ferðina fóru Elísabet Atladóttir, Sigurður Bjarki Ólafsson, Jón Haukur Steingrímsson, Andrea Geirsdóttir, Steph Matti, Þórður Aðalsteinsson, Arnar Daði Bjarnason og Haukur Friðriksson. Elísabet Atladóttir Grýlukertið í Tutto Relativo WI4. Andrea klifrar upp á eftir Jón Hauki. Arnar Daði klifrar á gömlum trjádrumb í miðjum fossi. Steph bíður eftir að byrja. Eftir ísklump í andlitið blæddi úr augabrúninni.

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==