KYLFINGUR 2024
Ragga byrjaði með látum Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, hóf golfvertíðina með látum og sigraði á Vormóti GS og viku seinna brá hún sér út á Nes og sigraði á Vormóti NK. Vormótin voru haldin tvær síðustu helgarnar í maí. Mikil spenna var á Vormóti GS sem leikið var á Hólmsvelli í Leiru en þar mættu bestu kylfingar landsins til leiks. Ragnhildur tryggði sér sigurinn með fugli á lokaholunni og sigraði með minnsta mun. Hún fékk fugl á fyrstu holu dagsins, tapaði síðan höggi á 11. og 12. braut. Hún fékk eins og áður segir fugl á lokaholunni sem var annar fugl dagsins og lauk því leik á pari vallarins. Í karlaflokki sigraði Gunnlaugur Árni Sveinsson sem lék á 67, fimm höggum undir pari vallar. Leika átti 36 holur á þessu móti en fyrri umferðin var felld niður vegna veðurs. Minni spenna var á Vormóti NK en þar sigraði Ragnhildur með fjögurra högga mun. Þetta er annað Vormótið í röð sem Ragnhildur sigrar en hún var fjórum höggum betri en Berglind Erla Baldursdóttir, GM, og sex höggum á undan Berglindi Björnsdóttir, einnig úr GR, sem endaði í þriðja sæti. Vormótin eru ætluð kylfingum sem eru með forgjafarlágmörk inn á GSÍ-mótaröðina, 5.5 hjá körlum og 8.5 hjá konum.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==