SOS Blaðið - Desember 2025

2 SOS BLAÐIÐ Kæri styrktaraðili Það er stundum sagt að góðverk gerist í hljóði – en hjá SOS Barnaþorpunum viljum við að þú heyrir hljóðið sem góðverk þitt framkallar. Við heyrum rödd vonar sem áður var þögnuð, hlátur barns sem hefur eignast fjölskyldu, gott heimili og fengið tækifæri til náms - og andvarp léttis hjá foreldri sem hefur brotist út úr sárafátækt með aðstoð SOS og getur séð fyrir börnum sínum. Það er líka alveg hægt að gefa fjárframlög í hítina til góðgerðarmála og treysta því að framlögin skili sér þangað sem þeirra er þörf, án þess að fylgjast eitthvað sérstaklega með því. Og það er líka í góðu lagi. Við eigum að geta treyst rótgrónum og viðurkenndum samtökum til að fara vel með söfnunarfé. Við heyrum reglulega frá styrktaraðilum að það sem þeim líkar sérstaklega við SOS Barnaþorpin er rekjanleiki framlaganna í formi upplýsinga. Við vitum að traust er ekki sjálfgefið og þess vegna leggjum við okkur fram við að upplýsa styrktaraðila og það er m.a. tilgangur þessa tímarits, SOS blaðsins. Eru bréfin ekki að berast til þín frá barnaþorpunum? SOS foreldrar fá bréf tvisvar á ári frá barnaþorpunum með myndum og fréttum af styrktarbörnunum og lífinu í barnaþorpunum. SOS fjölskylduvinir fá sögur og sjá viðtöl við barnafjölskyldur sem hafa brotist út úr sárafátækt í fjölskyldueflingu SOS. Sömuleiðis fá SOS neyðarvinir upplýsingar um hvernig við störfum fyrir börn á stríðs- og hamfarasvæðum. Svona fylgjumst við með því hvernig framlögin gera gagn. Póstþjónusta getur verið misjöfn í samstarfslöndum okkar og stöku sinnum kemur það fyrir að bréf berast ekki frá barnaþorpunum til SOS foreldra. Þá viljum við gjarnan vita af því svo við getum brugðist við. Þess vegna viljum við vekja sérstaka athygli þína á Mínum síðum á sos.is. Þar geturðu nálgast öll bréfin og myndirnar til þín rafrænt ásamt myndböndum frá barnaþorpunum. Ef bréfin eru ekki að berast þér er þér líka alltaf velkomið að hafa samband á skrifstofu SOS í síma 5642910 og óska eftir útprentun á bréfunum svo við getum sent þau til þín. Mínar síður eru þitt persónulega örugga svæði inni á heimasíðunni okkar og þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum eða auðkennisappinu. Þar geturðu séð yfirlit yfir allan stuðninginn þinn og breytt persónulegum upplýsingum þínum eins og greiðslukortanúmeri og netfangi. Færri prentuð blöð og meira á netinu Glöggir mánaðarlegir styrktaraðilar SOS Barnaþorpanna á Íslandi hafa kannski tekið eftir því að SOS blaðið kemur sjaldnar út en áður. Við höfum jú fækkað útgáfum frá þremur blöðum á ári niður í eitt vegna mikilla hækkana á útburðargjöldum - en um leið vinnum við í að efla upplýsingagjöf í tölvupóstum, á heimasíðunni og á sam- félagsmiðlum okkar. Við kappkostum að halda rekstrar- kostnaði samtakanna hér á Íslandi í lágmarki og erum afar stolt af árangri okkar í þeim efnum. Á árinu 2024 var hann aðeins 14,5%, sem þýðir að 855 krónur af hverju þúsund króna framlagi fara í sjálft hjálparstarfið. Sjónvarpsþættir um SOS Upplýsingaleiðir okkar eru í sífelldri endurskoðun og undanfarin ár höfum við líka framleitt sjónvarpsþætti með velgjörðasendiherrum SOS og fleirum sem gefa vinnu sína í þágu barnanna. Í Sjónvarpi Símans finnurðu Rúrik og Jói í Malaví (2022), Eva Ruza í Króatíu (RÚV, 2024), Endurfundir Sonam og Ingibjargar (Landinn á RÚV, 29. september 2024) og svo verður nýr þáttur sýndur á RÚV á næstunni, Rúrik í Rúanda. Í þessari umfjöllun heimsækjum við barnaþorp og verkefnasvæði okkar erlendis sem tengjast stuðningi okkar Íslendinga. Hjá SOS Barnaþorpunum er slóð framlaga þinna rekjanleg með frásögnum sem þessum. Ég vona að þú njótir lesturs þessa tímarits og þakka þér fyrir að standa með börnunum. Hans Steinar Bjarnason Upplýsingafulltrúi Svona fylgistu með hvernig framlögin þín verða að gagni

RkJQdWJsaXNoZXIy MzI5Mjk2Nw==