6 SOS BLAÐIÐ Erfitt að sjá sum börn koma í barnaþorpið Það skiptir miklu máli hvernig tekið er á móti börnum þegar þau koma í barnaþorpin. Ambika sá síðar með eigin augum hversu slæmum aðstæðum sum börnin höfðu verið í áður en þau komust í öryggi barnaþorpsins. „Ég sá hversu erfitt líf sumra var á því augnabliki. Sum voru alvarlega vannærð, önnur með sár eða veikindi. En ég sá líka hvernig hjúkrunarfræðingar og starfsfólk SOS tóku á móti þeim – með hlýju, lækningu og virðingu. Þau fengu annað tækifæri í lífinu. Ef ekki væri fyrir SOS, væri ég kannski bara lítil stelpa á götuhorni að selja blöðrur. Í staðinn fékk ég menntun, fjölskyldu og tækifæri til að verða sú manneskja sem ég er í dag.“ Ambika eignaðist ekki bara systkini í barnaþorpinu heldur líka framtíðarvini, innan þess og utan. „Þau hafa alltaf verið til staðar fyrir mig og eru mín raunverulega fjölskylda og samfélagsnet.“ Ströngust þegar kom að náminu Frá unga aldri var Ambika ákveðin í að læra. Hún segir að móðir hennar hafi ekki sætt sig við léleg próf. „Hún var strangari en kennararnir! En í dag sé ég hvað það hefur gert fyrir mig.“ Ambiku dreymdi lengi um að verða vísindamaður en rifjar hlæjandi upp að það hafi ekki verið raunhæfur draumur. „Svo komu eðlisfræðin og efnafræðin og þá ákvað ég að breyta um stefnu,“ segir Ambika sem lærði hjúkrun og vann um stund sem hjúkrunarfræðingur en fann sig að lokum í öðru. Hún tók MBA-gráðu í mannauðsstjórnun og starfar nú hjá frönsku fyrirtæki í Bangalore. „Ég er ánægð og þakklát fyrir hvar ég er í dag,“ segir Ambika og bætir við að eldri systkini hennar úr barna- þorpinu hafi einnig náð mjög langt í lífinu og séu hátt sett í virtum fyrirtækjum. Póstkortin frá Íslandi og leitin að Hafdísi Á barnsaldri byrjaði Ambika að fá póstkort frá Íslandi. Þau komu frá styrktarforeldri hennar, konu að nafni Hafdís. „Ég var í sjöunda eða áttunda bekk þegar ég byrjaði að skrifa henni til baka,“ segir Ambika. „Ráðgjafarnir hjálpuðu mér að skrifa á ensku. Ég man sérstaklega eftir póstkortunum með myndum af norðurljósunum. Ég geymdi þau öll.“ Þegar árin liðu hættu kortin að berast. Ambika flutti úr barnaþorpinu, fór í háskóla, giftist og lífið hélt áfram. En póstkortin héldu áfram að fylgja henni. „Einn daginn var ég að taka til og sýndi eiginmanni mínum póstkortin. Hann sagði: „Af hverju reynirðu ekki að finna hana?“ Þau leituðu á samfélagsmiðlum, en án árangurs. Loks höfðu þau samband við SOS Barnaþorpin á Íslandi með aðeins eitt nafn: Hafdís. Þær upplýsingar dugðu ekki til að finna hina réttu Hafdísi vegna hertra reglna um geymslu persónuupplýsinga um börnin í barnaþorpunum. Starfsfólk SOS á Íslandi tók sig því til og birti færslu á Facebook í þeirri von að einhver myndi kannast við söguna. Færslan fór á mikið flug, varð að fjölmiðlafári á Íslandi og að lokum var þjóðin farin að taka þátt í leitinni að „Hafdísi“. Ekki tók langan tíma þar til allt small saman. Hafdís var ekki fornafnið — heldur millinafn. SOS-foreldrið hét Guðrún Hafdís og í gögnum SOS kom fram að sú kona hafði einmitt styrkt barn í þessu sama barnaþorpi. „Þegar ég heyrði það varð ég djúpt snortin,“ segir Ambika. „Að allt Ísland skyldi hafa tekið þátt í leitinni að Hafdísi – mér fannst það dásamlegt og undirstrikar að fólk um allan heim getur sameinast í góðverki.“ Ambika hefur alltaf verið mikill dýravinur.
RkJQdWJsaXNoZXIy MzI5Mjk2Nw==