Súlur Áramótablaðið 2021-2022

3 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Þ á er árið að líða í aldanna skaut og við hæfi að líta til baka. Það má segja að árið hafi einkennst af verkefnum í almannaþjónustu fremur en hefðbundnum útköllum. Gæsla vegna eldgossins í Geldingadölum tók sinn toll af heimamönnum og þar sýndi sig og sannaði samtakamáttur björgunarsveitanna. Sveitir af landinu öllu sameinuðust í því verkefni að vera fólki, misvel búnu, innan handar við ævintýrið upp að gosi. Þar lögðum við okkar lóð á vogarskálarnar og höfðum gagn og gaman af. Þá hafa ófáar klukkustundir okkar fólks þetta árið farið í að vísa fólki á leið í bólusetningu til stæðis við Slökkviliðsstöðina á Akureyri. Það hefur almennt gengið ljómandi vel og bæjarbúar sýnt á sér sínar bestu hliðar þó álagið og biðin hafi stundum verið nokkur. Þrátt fyrir þessi skemmtilegu en tímafreku verkefni hefur hækkandi bólusetningarhlutfalli þjóðarinnar skapað svigrúm til að hefja starf innan sveitarinnar sem svipar til einhvers sem eðlilegt getur talist. Okkar fólk hefur tekið því fagnandi og æfingar og skipulögð starfsemi hefur farið blómlega af stað þetta haustið. Fyrir nokkrum misserum stofnuðu nokkrir framtakssamir einstaklingar drónahóp innan sveitarinnar og hefur sá heldur betur fengið verkefni við leit að dýrum og fólki og gjörbreytt verklagi við leitir og verður áframhaldandi verkefni að þróa aðferðir til að nýta þessi öflugu tól til fullnustu. Þá urðu einnig jákvæðar breytingar á tækjakosti sveitarinnar á árinu. Við fengum björgunar-sæþotu til leitar og björgunar við fjörur og í grynningum. Sú hefur þegar verið nýtt í nokkrum aðgerðum og reynst vel. Því megum við sátt við una í lok ársins. Starfið er komið á ljómandi flug og víst er að nóg verður að gera á ári komanda. Þetta er ekki sjálfgefið og félagar mínir í Súlum og öðrum sveitum svæðisins eiga allt mitt hrós skilið og ég hlakka til að fá að starfa með öllu þessu óeigingjarna fólki á því ári sem nú er að hefjast. Ég vil að endingu þakka öllum velunnurum sveitarinnar veittan stuðning fyrir hönd sveitarinnar. Það góða samband sem hefur skapast okkar á milli í áranna rás er okkur afar mikilvægt því að reyndin er sú að við treystum á ykkur rétt eins og þið getið treyst á okkur og án ykkar stuðnings megum við okkar lítils. Gleðilegt nýtt ár. Gunnlaugur Búi Ólafsson formaður Formannspistill Útgefandi: Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, 2021 Ábyrgðarmaður: Gunnlaugur Búi Ólafsson Ritstjórn: Andrés Tryggvi Jakobsson og Magnús Björnsson Myndir: Félagar úr Súlum Umbrot og hönnun: Prentmet Oddi Prentun: Prentmet Oddi Upplag: 7500 eintök Forsíðumynd: Sigurður Bogi Ólafsson Gleðilegt nýtt ár!

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==