Súlur Áramótablaðið 2021-2022
32 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Þ að hefur varla farið fram hjá neinum að um miðjan mars á þessu ári hófst eldgos í Fagradalsfjalli. Mikill áhugi var á gosinu og flykktust bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn að gosinu til að freista þess að berja það augum. Mikið mæddi á björgunarsveitum á Suðvesturhorni landsins sem stóðu vaktina allan sólarhringinn við gosstöðvarnar og mikið álag var á mannskapnum. Fljótlega var ákveðið að leita aðstoðar til björgunarsveita víðs vegar af landinu. Það var því úr að 14 manna hópur fór suður og stóð vaktina yfir páskahelgina. Farið var á tveimur bílum og einum buggy bíl sveitarinnar suður. Helsta verkefni hópsins var gæsla, eftirlit og viðbragð á gönguleiðum, auk almennrar aðstoðar og upplýsingagjafar. Þegar á svæðið var komið á laugardagsmorgninum var staðan hins vegar allt önnur. Svæðið var lokað vegna yfirvofandi vonskuveðurs og tókum við okkur því stöðu á lokunarpóstum og sáum til þess að enginn óviðkomandi færi inn á svæðið. Þegar leið á daginn fengum við þó það verkefni að prófa nýju gönguleiðina og taka GPS feril af henni. Það var mögnuð upplifun að komast í návígi gosins og heyra snarkið í hrauninu í fullkominni kyrrð og ró. Á leiðinni til baka skall á vonskuveðrið sem búið var að spá allan daginn og vorum við því mjög fegin að komast aftur niður í bílana. Á sunnudeginum var svæðið opnað aftur og sinnti hópurinn þá gæslu og eftirliti auk þess að vera með mannskap í sjúkratjaldinu. Þessi ferð var stórskemmtileg og mjög lærdómsrík, sérstaklega fyrir nýliða eins og mig en ég var aðeins búin að vera í sveitinni í hálft ár. Covid-19 hefur óneitanlega haft áhrif á starfið síðan ég byrjaði í sveitinni og á þessum tímapunkti hafði blöndun mismunandi hópa innan sveitarinnar verið í lágmarki. Í gosgæslunni fékk ég tækifæri til þess að kynnast skemmtilegum hóp innan sveitarinnar og kom heim reynslunni ríkari, þar sem tíminn okkar á laugardeginum var vel nýttur í spjall og kennslu á búnaðinn sem var meðferðis. Elva Dögg Pálsdóttir Eldgosið í Fagradalsfjalli
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==