Súlur Áramótablaðið 2023-2024

14 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Wilderness svið Landsbjargar Ég heiti Axel Ernir Viðarsson og er fagstjóri yfir wilderness sviði SL og var beðinn um að segja aðeins frá wilderness (óbyggða) sviði Landsbjargar og hvað felst í því að vera fagstjóri á þessu sviði. Ef við byrjum á byrjuninni þá er Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) það sem kallast Licensed training company (LTC) sem á íslensku mætti kalla umboðsaðila fyrir bandaríska fyrirtækið Wilderness Medical Associates International (WMAI) og það þýðir að SL er eina fyrirtækið á Íslandi sem má kenna námskeið WMAI. Þau námskeið sem fyrirtækið kennir eru mjög mismunandi en öll eiga þau það sameiginlegt að þau snúast um að þjálfa fólk í að sinna veikum og slösuðum einstaklingum í aðstæðum þar sem mjög langt er í sérhæfða aðstoð og langt í að einstaklingurinn komist á sjúkrahús. Í þessum tilvikum er skilgreiningin á því hvað telst til að vera óbyggðir amk tvær til þrjár klst. í sérhæfða aðstoð og getur verið allt upp í marga daga þar sem björgunarfólk þarf að sinna sjúklingnum. Það fer þó alveg eftir aðstæðum hverju sinni og oft hafa komið upp aðstæður mjög nálægt byggð en ómögulegt að koma sjúkling á sjúkrahús vegna t.d. veðurs, landslags og ýmissa annarra þátta. Þau námskeið sem við kennum á Íslandi eru Vettvangshjálp í óbyggðum (e. Wilderness First Responder eða WFR) sem eru fyrir fólk sem er líklegt til að vera í óbyggðum og að þurfa að sinna veikum og slösuðum t.d. björgunarsveitafólk, leiðsögu- menn og fólk sem stundar mikla útivist. Þetta námskeið er 76 klst. og tekur átta daga. Sjúkraflutningar í óbyggðum (e. Wilderness Emergency Medical Services eða WEMS) sem er fyrir sjúkraflutningafólk, bráðatækna, hjúkrunarfræðinga og lækna sem hafa mikla menntun og reynslu fyrir en verið er að bæta óbyggðaþættinum ofan á það sem fyrir er og er dýpra en WFR. Þetta námskeið er 50 klst. og tekur fimm daga. Sérhæfð bráðaaðstoð í óbyggðum (e. Wilderness Advanced Life Support eða WALS) sem er fyrir bráðatækna, bráða- hjúkrunarfræðinga og lækna er fyrir mikið menntað og reynslumikið fólk og þar er kafað mjög djúpt í meðferð og inngrip hjá sjúklingi í óbyggðum og langur flutningur fram undan. Þetta námskeið er 36 klst og tekur fjóra daga. Langmest af því sem við kennum hjá Björgunarskóla SL eru WFR námskeiðin. Öll þessi námskeið enda með bóklegu og verklegu prófi sem nemendur þurfa að standast og í kjölfarið fær nemandi skírteini sem gildir í þrjú ár og þarf þá að koma í endurmenntun til að viðhalda réttindum sínum. Við erum að jafnaði að kenna um 10-12 námskeið á ári. Hvað gerir fagstjóri? Landsbjörg rekur sinn eigin björgunarskóla og innan hans eru mörg svið og hvert svið hefur sinn sviðsstjóra og í sumum tilfellum fagstjóra. Hlutverk þeirra er almennt utanumhald, ábyrgð á viðkomandi sviði, stuðningur við leiðbeinendur sviðsins, námsefnisgerð, og ýmislegt sem til fellur. Starfsárið okkar er frá september til maí og mitt starf fyrir hvert starfsár hefst að vori þegar skila þarf inn drögum að dagskrá fyrir komandi vetur, hversu mörg námskeið á að halda, hvar á landinu o.þ.h. Um það bil þremur mánuðum áður en námskeið hefst þarf svo að finna endanlega staðsetningu fyrir námskeiðið (hafi það ekki þegar verið gert), húsnæði, tengilið og auglýsa það í samvinnu við starfsfólk björgunarskóla sem sér um skráningu á námskeiðin. Um fjórum vikum fyrir námskeið sendi ég út bréf á þátt- takendur með ýtarlegum upplýsingum er varða námskeiðið og tilhögun þess, við taka svo fjölmargir tölvupóstar frá nemendum sem hafa spurningar og ýmsar vangaveltur. Dagana fyrir námskeið þarf svo að taka til námsgögn og ýmsan búnað sem fylgir og það er mikið magn af búnaði sem fylgir. Þannig að þegar nemandinn sest í sætið sitt á upphafsdegi námskeiðs og það rúllar af stað er mjög mikil vinna búin að eiga sér stað svo allt gangi upp. Vettvangshjálp í óbyggðum Axel Ernir Viðarsson

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==