Súlur Áramótablaðið 2023-2024
20 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Lyftuæfing í Hlíðarfjalli Ég veit ekki hversu oft ég hef setið í Fjarkanum og hugsað með mér hvað það væri geggjað að fá að klifra upp þessi lyftumöstur. Mjög skemmtileg hugmynd á meðan hún er bara hugmynd. Ég get kannski ekki sagt að ég sé eitthvað rosalega lofthræddur en ég vil helst ekki koma mér í aðstæður þar sem mér líður eins og ég sé ekki með fulla stjórn. Í lok apríl kom tækifærið að fara upp í lyftumastur Fjarkans eða allavega að láta bjarga sér úr stólnum og láta reyna aðeins á hina meintu lofthræðslu. Súlur, Björgunarsveit á Akureyri var með æfingu í lyftubjörgun í Hlíðarfjalli og líklega ekki vanþörf á að æfa handtökin því bæði hefur áhugi á skíðamennsku aukist og stólalyftunum fjölgað en líka hefur nýlega reynt á hæfni björgunarmanna í aðgerð þar sem bjarga þurfti skíðamönnum úr bilaðri lyftu. Það var vaskur hópur frá Súlum sem mætti árla á laugardagsmorgni upp í Hlíðarfjall. Þar sem þetta var mín fyrsta æfing í lyftubjörgun var markmið dagsins að drekka í sig þekkingu og læra inn á hvernig staðið er að lyftubjörgun. Mannskapnum var skipt upp í hópa þar sem hlutverkin skiptust nokkurn vegin í þrennt. Einn hópur sá um að klifra möstrin með þær bjargir sem þurfti að koma til þeirra sem voru í neyð. Annar hópur skellti sér í lyftuna til að láta bjarga sér og sá þriðji var á jörðinni tilbúinn að stjórna björguninni og sigtólunum. Huga þarf vel að öryggisbúnaði þeirra sem klífa möstrin og var farið vel yfir hver hann er áður en klifrið hófst. Hjálmur, sigbelti, línur og karabínur og fleira er nokkurskonar grunnbúnaður áður en klifrað er upp. Hvert mastur er í töluverðri hæð svo það er eins gott að hafa allt á hreinu. Aðstæður við stólalyftur geta verið mismunandi og því mismunandi aðferðir sem notaðar eru við lyftubjörgun þar sem halli, hæð og fjarlægð milli mastra getur til dæmis skipt máli. Hér á Akureyri er Fjarkinn frekar einfaldur og þægilegur hvað varðar hæð og halla og því nokkuð einföld tækni notuð við björgun. Línu er einfaldlega kastað yfir lyfturvírinn og hún látin renna niður að þeim sem á að bjarga. Litlum stól er komið til þess sem er í neyð, viðkomandi klæðir lykkju undir hendurnar á sér, sest í stólinn og hann svo látinn síga niður. Mjög einfalt og árangursríkt enda skiptir miklu máli að geta unnið hratt með öryggið í fyrirrúmi þegar kemur að lyftubjörgun. Ég lét það vera að klifra möstrin þennan laugardagsmorgun, það verður að bíða betri tíma, en lét þó verða af því að láta bjarga mér úr stólnum. Sú björgun gekk að öllu leiti mjög vel og á innan við 60 sekúndum eftir að aðgerð hófst stóð ég á löppunum á jörðinni, tilbúinn að fara aftur. Það er gott að vita til þess að Súlur, Björgunarsveit á Akureyri hafi yfir þekkingu og reynslu að búa þegar kemur að lyftubjörgun ásamt starfsfólki Hlíðarfjalls. Ingvar Már Gíslason
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==