Súlur Áramótablaðið 2023-2024

22 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Ferð bílaflokks á Kjalveg Þegar ég var beðinn um að skrifa grein um ferðina, var ég kannski full fljótur að segja já, ég hef nefnilega aldrei verið mikill penni en þetta vakti einhvern áhuga hjá mér svo ég mun gera mitt besta við að segja frá ferð bílaflokks upp á Kjöl og Langjökul. Þegar ferðin var skipulögð stakk ég upp á Kjalvegi því þar er merkilega mikið að sjá ef fólk hefur áhuga á náttúrunni og þó farið hafi verið af stað í svarta myrkri á föstudagskvöldi og það sæist ekkert, nema það sem bílljósin skinu á, þá er þetta skemmtilegur akstur. Þessi ferð byrjaði samt eins og margar aðrar þ.e. á hlutunum sem gleymdust heima. Ferðafélaginn gleymdi nestinu svo við leggjum tveir af stað, eftir að hafa sett allan farangur í Súlur 1, og rennum eftir nestinu heim til hans. Nema hvað að þegar ferðafélagi minn er kominn inn heima hjá sér og finnur hvergi nestið sitt kveikir hann á því að nestið er í bílnum bara í öðrum bakpoka. Við hlæjum að því og leggjum af stað í átt að bæjamörkum með nestið. Rétt áður en komið er úr bænum segir hann að hann þurfi að pissa. Ég trúi varla eigin eyrum því ekki 5 mínútum áður stóð hann inni heima hjá sér og hefði getað nýtt aðstöðuna þar, en fyrsta pissu stopp varð strax á Skeljungi við Hörgárbraut. Það kom þó ekki að sök því um sama leyti var hinn jeppinn, Súlur 2, rétt að verða klár fyrir brottför svo við lögðum af stað í Varmahlíð þar sem við ætluðum að hitta félaga úr björgunarsveitinni Strákum sem við höfðum boðið með okkur. Það voru því fimm félagar frá þeim á tveimur jeppum sem bættust í ferðahópinn í Varmahlíð. Ákveðið var að fara upp Svartárdal, lúmskt langan dal að keyra og eflaust mjög fallegan en við getum lítið dæmt um fegurðina því eins og ég nefndi áður, keyrðum við í svarta myrkri. Þegar upp á hálendið var komið ókum við austan við Blöndulón, mjög skemmtilega leið. Það ber þó að varast tvö vöð á leiðinni sem þó voru ekki farartálmi í okkar tilfelli enda árnar vel frosnar. Við komuna á Hveravelli, rétt að verða miðnætti, og tók vertinn vel á móti okkur og okkar biðu verðlaun fyrir dagsverkið, bað í náttúrulauginni sem er við gamla skálann sem við gistum í. Fullkominn endir á deginum með stjörnubjartan himinn og einu og einu stjörnuhrapi. Daginn eftir var fólk mis árrisult og meðan sumir sváfu lengur fóru aðrir í stuttan göngutúr um hverasvæðið í nýfallinni snjóföl og enn aðrir sátu inni og spjölluðu yfir morgunmatnum. Planið þennan daginn var að skoða Langjökul. Lögðum við af stað í átt að Oddnýjarhnjúk, þar er slóði sem liggur yfir hnjúkinn og í Hundadali. Þar er frekar stórgrýtt og dunduðum við okkur í allskonar sikk sakki að þræða snjólínur fram hjá grjótinu. Á tímabili var ég viss um að við værum að fjarlægjast jökulinn en svo var þó ekki og tók hann á endanum á móti okkur hvítur og fagur. Þegar á jökulinn var komið var ekki langt í fyrstu festu en snjórinn var frekar þurr og þéttur svo bílarnir sukku aðeins. Þá er heppilegt að geta hleypt meira úr dekkjunum til að ná betra floti. Það dugði þó minnsta jeppanum skammt svo eftir nokkrar smá festur og vandræði var hann settur í tímabundið tog. FLUGELDAMARKAÐUR HJALTEYRARGÖTU 12

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==