Súlur Áramótablaðið 2023-2024

23 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Það kom þó að því að færðin skánaði, snjólögin urðu þéttari og þá var hægt að taka þann minnsta úr spottanum og komast hraðar yfir. Eftir c.a. þrjá tíma í akstri frá Hveravöllum komum við að Þursaborg á Langjökli sem var okkar fyrsti áningarstaður. Þar komumst við að því að plastkassar úr Jysk (rúmfó) eiga ekki heima í skottinu með öðru dóti í jöklaferðum. Einn kassinn var orðin að góðu púsluspili sem var þó ekki það versta því kvöldverðakassinn sem allar sósur, kartöflusalat og hrásalat var í, var komið nánast út um allt og í góðan þeyting. Það jákvæða við þetta var að við þyrftum a.m.k. ekki að hafa fyrir því að skófla hverju og einu á gaffalinn um kvöldið. Frá Þursaborg var stefnan tekin á Fjallkirkju. Upp að henni liggur skemmtilega brött brekka sem við reyndum einn jeppann aðeins við. Það kom þó smá babb í bátinn því þegar hann komst sem hæst færðist hægra afturdekkið til á innri kanti felgu og hleypti öllu lofti úr hraðar en loftdælan gat dælt í. Þarna sátum við þá með flatt aftur dekk í miðri brekku, hvorki hægt að fara afturábak né áfram nema að eiga á hættu að skemma dekkið eða affelga alveg. Drullutjakkurinn fékk þá að gera sitt og eftir smá bras var loft komið í dekkið og bílnum var bakkað aftur niður. Fyrst enginn bílanna komst þar upp löbbuðum við upp á Fjallkirkju og kíktum í skála Jöklarannsóknarfélagsins. Eftir það var stefnan tekin í Skálpanes en þar ætluðum við okkur niður af jöklinum. Um átta km frá jökul jaðrinum hvarf snjórinn og við tók klaki og ekki beint sléttur og fínn. Keyrðum við á hæðum og niður í dali svo lá við að maður yrði bílveikur eftir allan veltinginn. Það slapp þó til og komumst við niður af jöklinum án þess að skila neinu upp. Þegar komið var niður á veg var lítill snjór en þó aðeins farið að skafa í veginn við Hveravelli. Á Hveravöllum var mættur camp easy bílaleigubíll okkur til mikillar furðu en sá hafði líklegast komið þangað fyrr um daginn. Eftir kvöldmat sem innihélt jökla-sósu þeyting dagsins beið okkar að sjálfsögðu náttúrulaugin, þó ekki fyrr en hitastigið var rétt af en hún var víst aðeins of heit eftir jaaah, hóst... mig, svo við komumst ekki ofan í í fyrstu tilraun. Ræst var snemma á sunnudagsmorgni. Þá var áðurnefndur camp easy bíll farinn og vorum við viss um að við fyndum hann fastan einhvers staðar á leiðinni. Svo var þó ekki því fólkið hafði snúið við vegna ófærðar og renndi aftur í hlað á Hveravöllum. Kom í ljós að þau stefndu á Snæfellsnes. Af hverju þau völdu að fara yfir Kjöl að vetri til spurðum við ekki en við buðumst til að fylgja þeim í gegnum skaflana þar sem við vorum á sömu leið. Það gekk þó ekkert allt of vel enda fólk óvant snjóakstri og festi bílinn nokkrum sinnum. Það endaði á því að við buðumst til að einn úr okkar hópi tæki við akstrinum meðan við færum í gegnum erfiðasta færið. Það gekk svo ljómandi vel eftir ökumannsskiptin að allt í einu er kallað í talstöðina „Gefið í! Hann er að koma.“ Máttum við hafa fyrir því að vera ekki fyrir. Leiðir okkar og ferðalanganna skildu þegar við komum að Eyfirðingarveg, þaðan ættu þau að komast klakklaust sína leið eftir Kili enda snjólétt. Við stefndum norður fyrir Hofsjökul og að miðju Íslands, gekk ferðin þangað vel og án mikilla vandræða þó var ein og ein smá festa í snjó eða við að fara yfir ár þar sem ís brotnaði undan þunga bílanna. Við miðju Íslands var smellt í hópmynd áður en ferðinni yrði haldið áfram heim á leið. Þegar við nálguðumst Skagafjarðarleið fór færðin að þyngjast og þurfti að hjakka aðeins í snjónum til að ryðja leið í gegn á stöku stað. Súlur 1 fór því á undan til að slóða fyrir hina og þó þetta tæki allt tíma þá komumst við á endanum niður á auðan veg og þaðan í Varmahlíð og áfram heim. Lesandi kann að spyrja sig af hverju við förum í svona ferðir. Í þessari ferð æfðum við okkur í samvinnu, að leysa vandamál eins og festur í snjó, finna leiðir yfir ísilagðar ár, keyra eftir GPS og svo margt fleira. Ferðirnar styrkja auk þess tengslin á milli manna og gerir þeim kleift að þekkja betur inn á hvorn annan sem er oft nauðsyn í útköllum. Hjörtur Þór Hjartarson

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==