Súlur Áramótablaðið 2024-2025
34 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Á NAM deginum hafa flokkar sveitarinnar hver um sig skipulagt verkefni sem standa yfir í sólarhring og reyna á þá reynslu og þekkingu sem nýliðar hafa sótt í nýliða- prógrammi og starfi sveitarinnar. Að lokinni 18 mánaða nýliðaþjálfun fá nýliðar tækifæri til að sýna fram á þekkingu sína á þeim verklegu þáttum sem þjálfunin gengur út á. Þá er haldinn svokallaður „NAM-dagur“, sem er sólahringsævintýri skipulagt af nýliðaþjálfurum ásamt félögum í björgunarsveitinni. Þetta er viðamikið verkefni sem krefst góðs undirbúnings og skipulags. Að þessu sinni var dagurinn haldinn hátíðlegur 12.-13. apríl. Hér lýsa þeir Áskell Þór sem var nýliðaforingi hópsins og Ólafur Ingi sem var þáttakandi í NAM- deginum, sinni aðkomu og upplifun af deginum. Undirbúningur Á: Undirbúningurinn hófst löngu áður en dagurinn rann upp. Skipulagið gekk út á að þátttakendur myndu leysa þrautir og verkefni sem tengdust þjálfun þeirra síðustu 18 mánuði. Hvert verkefni var hannað til að prófa hæfni nýliða á mismunandi sviðum, svo sem fyrstu hjálp, leitartækni, ferðamennsku, rötun, fjallabjörgun og snjóflóðaleit. Veðurspáin var spennandi – fremur svalt og snjókoma í kortunum. Skipuleggjendur lögðu áherslu á að hópurinn væri sjálfbjarga með mat, gistingu og búnað í sólarhring. Þeir gátu þó óskað eftir sérhæfðum búnaði eftir þörfum. Meginreglan var einföld: „Þið fáið verkefni og leysið þau.“ Ó: Þennan föstudag hafði snjóað töluvert og leit út fyrir frekari úrkomu. NAM hópur- inn hafði undanfarna daga undirbúið sig, sankað að sér búnaði sem gæti reynst vel, gengið úr skugga um að tjöld sveitarinnar væru í góðu ásigkomulagi og smurt sér nesti. Fyrsta verkefni hópsins var að fara yfir stærsta verkefnið sem var sólarhrings útivera. Huga að veðurspá, mögulegar hættur svo sem snjóflóð og fleiri praktísk atriði. Dagskrá Fyrsta verkefnið var sviðsett bílslys, þar sem hópurinn æfði vinnu við hópslys og fyrstu hjálp. Í kjölfarið tók við leitarverkefni, þar sem hópurinn leitaði að manni í nágrenni Glerár. Maðurinn fannst á bökkum árinnar fyrir neðan Háskólann á Akureyri. Þar tók við flókið fjallabjörgunarverkefni, þar sem þurfti að síga niður til sjúklingsins, búa um hann í börum og hífa upp á brún. Að lokum var hann fluttur í sjúkrabíl. Eftir þessi verkefni var klukkan orðin um 21:00 og gafst loks færi á smá næringu. Hópurinn fékk hringingu og var tilkynnt um að halda skyldi á náttstað, tjalda skyldi á flöt utan við Gamla, ofan við Kjarnaskóg. Búin fjallaskíðum og snjóþrúgum arkaði hópurinn af stað frá Háskólasvæðinu og stillti punktinn í Gamla inn í GPS tækin. Algerlega grunlaus um það að mögulegt hefði verið að óska eftir flutning í átt að náttstað. Það kom skipuleggjendum á óvart að hópurinn óskaði ekki eftir akstri þangað, heldur arkaði í gegnum bæinn. Hópurinn gekk í hríðarveðri í Gamla og var þangað kominn í kring um miðnætti. Í hraði sló hópurinn upp tjöldum, hitaði vatn og fékk sér nesti fyrir svefninn. NAM dagurinn 2024
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==