Súlur Áramótablaðið 2024-2025

36 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Árleg gönguskíðaferð Þann 8.-10. mars sl. héldu félagar í Súlum í sína árlegu gönguskíðaferð. Ferðin hefur verið farin árlega frá árinu 2013 en síðan þá hefur hún aðeins tvisvar fallið niður, annars vegar vegna snjóleysis, og hins vegar Covid. Ég hef farið undanfarin 2 ár og stefni ótrauður á að fara aftur í vor. Ferðalýsing: Á fyrsta degi er farið frá Svartárkoti í Bárðardal í Botna, skála FFA (u.þ.b.12,5 km). Á degi 2 er gengið frá Botna í Heilagsdal skála Ferðafélags Húsavíkur (u.þ.b. 26 km). Úr Heilagsdal er síðan gengið áfram í norður, fyrir Bláfjall og áleiðis að Hverfelli við Mývatn (u.þ.b. 15 km). Ferðin er hugsuð sem hluti af nýliðaþjálfun björgunarsveitarinnar. Þegar að henni kemur á starfsárinu hafa nýliðar þurft að taka mismunandi námskeið og þarna reynir svo á að nýta sér lærdóminn. Þau sem fara í ferðina þurfa að huga að góðum fatnaði til að takast á við íslenskt vetrarveður, léttu og kjarnríku nesti til þriggja daga, og loks að útvega sér skíðabúnað, til eigu eða leigu. Áður en lagt er af stað þarf einnig að huga að leiðarvali og setja upp í GPS- tækinu sínu. Stundum eru tekin með tjöld og gott er að öðlast reynslu í því að tjalda að vetri til og athafna sig við slíkar aðstæður. Eftir nokkur undirbúningskvöld þar sem farið er yfir búnað, og skíðagöngutækni æfð uppi í Hlíðarfjalli undir leiðsögn Leonards okkar Birgissonar, er fólk nokkuð tilbúið í svona ferð. Félagar ræða hvort þeir vilji hafa púlkur til að draga búnaðinn sinn á eða bera bakpoka, hvort tveggja hentar vel. Ferðin okkar í mars tókst vel. Veðrið lék við okkur þó að vísu hafi verið nokkuð kalt fyrsta kvöldið og myrkrið skollið fljótt á okkur. Um miðnætti létti hins vegar til og þá var kærkomið að ganga í tunglskini og norðurljósum síðasta spölinn niður í Botna. Daginn eftir fengum við svo gott veður, sem var vel því sú dagleið er drjúg. Á sunnudeginum var veðrið bjart og gott en talsvert frost. Þegar við vorum kominn niður Góðagil (næsta gil norðan við Seljahjallagil) þurftum við fljótt að taka af okkur skíðin vegna snjóleysis og bera allan búnað nokkra kílómetra til móts við bíla sem voru komnir til að sækja okkur. Þaðan af var ekið í Jarðböðin sem voru kærkomin endastöð. Loks var komið við á Daddi’s Pizza að loknu baði svo allir félagar voru vel haldnir fyrir aksturinn heim. Gönguskíðaferðin er kærkomið tækifæri fyrir almenna félaga til að nota dótið sitt, rifja upp ferðamennsku og síðast en ekki síst að kynnast nýliðunum okkar. Takk fyrir mig. Halldór Halldórsson. FLUGELDAMARKAÐUR HJALTEYRARGÖTU 12

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==