Súlur Áramótablaðið 2024-2025
38 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Framkvæmdafréttir Óvenju mikið hefur verið um húsnæðis framkvæmdir hjá sveitinni á árinu sem er að líða. Sveitin hefur í töluverðan tíma stefnt að byggingu vélaskemmu á lóðinni og loks komst málið á þann stað að hægt væri að hefjast handa og voru fyrstu skóflustungur teknar 3. júní 2024. Húsið, sem sveitin er að byggja er 330 m² límtréshús frá Límtré Vírnet á steyptum grunni. Húsið skiptist upp í tvö hólf þar sem þrjár útkeyrsluhurðir eru í öðru og ein í hinu. Með þessu næst góð skipting fyrir tæki sem öll hafa sína eigin útkeyrsluhurð, Með nýju húsi getur sveitin loksins hýst öll sín tæki en vörubíll sveitarinnar hefur hingað til þurft að standa úti. Þá er markmiðið að koma öllu „blautdóti“ sveitarinnar, þ.e. báti, sæþotum, straumvatnsröftum, og tilheyrandi göllum og persónubúnaði við rýmri aðstæður þar sem betur fer um búnaðinn. Á sama tíma losnar töluvert pláss í hinu húsinu fyrir búnað sem hefur svo að segja verið munaðarlaus þegar kemur að aðstöðu, til dæmis fyrir drónahópinn okkar. Framkvæmdirnar hafa ekki aðeins verið úti á bílaplani heldur einnig innandyra en núna í haust var tekin í notkun ný og endurbætt aðstaða Aðgerðastjórnar á svæðinu. Aðgerðastjórnin er á forræði Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra en embættið endurnýjaði í vor samning við Súlur þar sem sveitin leggur til húsnæði undir aðstöðuna. Aðstaðan gegnir lykilhlutverki í að samræma aðgerðir viðbragðs- aðila á svæðinu og hefur ítrekað sannað gildi sitt, hvort sem er við leit og björgun eða þegar viðbragðsaðilar eru við störf vegna ofsaveðurs eða náttúruhamfara. Með nýrri aðstöðu fjölgar vinnustöðvum úr 8 í 14 sem hægt er að vinna á samtímis, en einnig fá nýir verkþættir pláss eins og öryggisstjóri og drónasamhæfandi. Veggpláss er líka meira og gefur fleiri möguleika í sameiginlegri upplýsingamiðlun á skjám eða töflum. Þó ekki hafi reynt mikið á þessa nýju aðstöðu frá því hún var tekin í notkun er samt mikil ánægja með hana. Sveitin er ánægð með að geta lagt sitt af mörkum í að efla almannavarnir og samhæfingu aðgerða á svæðinu enn frekar með þessari bættu aðstöðu.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==