Súlur Áramótablaðið 2024-2025
4 Súlur, björgunarsveitin á Akureyri Ágætu Akureyringar og nærsveitamenn. Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, varð 25 ára þann 30. október sl. Þegar sveitin var stofnuð með samruna þriggja björgunarsveita sem störfuðu hér í bæ, höfðu margir efasemdir um þessa sameiningu. Þær raddir hafa þó fyrir löngu þagnað og sveitin dafnað, félögum fjölgað sem og hennar búnaði og tækjum. Fljótlega eftir sameiningu var núverandi húsnæði keypt í Hjalteyrargötu 12. Dugði það okkur vel í mörg ár. Fyrir nokkrum misserum varð þó ljóst að huga þyrfti að nýrri byggingu. Stjórn ákvað að fara í framkvæmdir eftir umboð frá félögum og ákveðið var að byggja 330 fm² vélaskemmu á lóð sveitarinnar, og er bygging hennar nú á lokastigi. Upp úr síðustu áramótum var einnig ljóst að Aðgerðarstjórn Almannavarna (AST), sem leigt hefur aðstöðu í húsnæði Súlna undanfarin ár, var farið að vanta meira rými. Var því ákveðið að breyta efri hæðinni þannig að rými AST stækkaði og lauk þeim framkvæmdum í nóvember sl. Við í Súlum erum stolt af því að eiga í góðri samvinnu við Almannavarnir Eyjafjarðar. Einnig hýsum við vettvangsbíl þeirra sem búið er að koma upp fyrir stjórnendur björgunaraðgerða á vettvangi. Það er ljóst að mikið hefur reynt á félaga eftir þær framkvæmdir sem sveitin hefur staðið í að undanförnu. Mikið verk hefur verið unnið í sjálfboðavinnu og mega sjálfboðafélög passa sig að ganga ekki of langt, svo ekki verði gengið á almennt starf sem er jú meginmarkmið sveitarinnar. En félagar í Súlum hafa staðið sig vel og okkur hefur tekist að halda uppi hefðbundnu starfi með fram þessum framkvæmdum. Það sýnir hversu fjölbreytt og öflug sveitin okkar er. Nýliðastarfið gengur vel. Það er okkur nauðsynlegt að fá nýtt fólk til starfa og leggjum við okkur fram um að taka vel á móti þeim. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk sýni hvert öðru skilning og virðingu í starfi, við verðum að þekkjast vel og geta treyst hvert öðru þegar á reynir. Eftir þrjú ár sem formaður þar sem ég hef fengið að kynnast félögum sveitarinnar betur og betur, sér maður hve mannauðurinn er mikill hjá okkur. Við stefnum á opinn dag fyrir velunnara og aðra íbúa í lok janúar. Þar ætlum við að bjóða upp á afmæliskaffi þar sem fólk getur kynnt sér fjölbreytt starf okkar, nýjar vistarverur, tæki og búnað. Nú nálgast áramótin, þá er vert fyrir okkur í Súlum að minna á flugeldasölu okkar. Flugeldasala er enn okkar langstærsta fjáröflun og hefur gert okkur kleift að byggja upp og viðhalda öflugri björgunarsveit. Sjáumst hress í Hjalteyrargötu fyrir áramót. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar. Halldór Halldórsson Formannspistill SKOÐIÐ ÚRVALIÐ SULUR.IS
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==