Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2020
FJALLA- OG HREYFIHÓPAR FÍ Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjalla- og hreyfihópum sem snúast um reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap. Meginmarkmið þessara hópa er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum. Árgjald Ferðafélags Íslands er innifalið í þátttökugjaldi. FÍ Alla leið Fjallaverkefnið Alla leið er verkefni semmiðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Haustgöngur Alla leið, sem stendur til áramóta. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig. Umsjón : Hjalti Björnsson. Kynningarfundur vorverkefnis: Miðvikud. 8. janúar kl. 19 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 67.900. FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið Fyrsta skrefið byggist á reglubundnum göngum á þægileg fjöll. Gengið er á mismunandi fjöll einu sinni í viku og að auki á Úlfarsfell alla miðvikudaga. Farið er á hraða sem hentar hópnum og þrek fólks er smám saman byggt upp. Auk hefðbundinna fjallgangna er boðið upp á dans, hjólreiðar og sjósund. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Næsta skrefið, frá september til áramóta. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig. Umsjón : Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson. Kynningarfundur FÍ Fyrsta skrefið: Fimmtud. 2. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 73.900. FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Fjöllin sem fyrir valinu verða teljast létt til miðlungs erfið en miðað er við að ganga rólega. Umsjón : Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson. Kynningarfundur: Þriðjud. 7. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 43.900. FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi en í verkefninu Léttfeta. Umsjón : Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson. Kynningarfundur: Þriðjud. 7. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 43.900. 15
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==