Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2020
NÁMSKEIÐ N1 Snjóflóðanámskeið 21. janúar, þriðjud. og 25. janúar, laugard. Leiðbeinandi : Auður Kjartansdóttir. Kennt : Bóklegt 21. janúar kl. 18-21 í risi FÍ, Mörkinni 6, og verklegt 25. janúar kl. 11 í Bláfjöllum. Snjóflóðanámskeið þar sem farið er yfir öll lykilatriði varðandi vetrarfjallamennsku í brattlendi. Námskeiðið skiptist í bóklegan og verklegan hluta. Skoðað verður m.a. leiðaval, mat á snjóalögum og aðstæður sem hafa áhrif á snjóflóðahættu svo sem veðurfar til fjalla, vindátt, hitastig, nýfallinn snjór og fleira. Jafnframt verður farið yfir nauðsynlegan öryggisbúnað fyrir ferðamenn þegar ferðast er um svæði þar sem hætta er á snjóflóðum. Verð : 13.000/16.000. Innifalið : Kennsla og verkleg æfing. N2 Ferðast á gönguskíðum. Tjaldferð NÝTT 22. janúar, miðvikud. og helgin 1.-2. febrúar. Leiðbeinendur : Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Kennt : Bóklegt 22. janúar kl. 19-22 í risi FÍ, Mörkinni 6 og verklegt 1.-2. febrúar á Hengilssvæðinu. Námskeiðið skiptist annars vegar í fræðslukvöld og hins vegar æfingaferð umHengilssvæðið, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður farið yfir hvaða útbúnað er best að nota í vetrarferðalögum á skíðum, hvernig hægt er að breyta venjulegri snjóþotu í skíðapúlku til að draga farangurinn á eftir sér, hvernig á að tjalda í snjó, halda á sér hita og hvernig tjöld, dýnur og svefnpoka best er að nota. Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi, alls 10-15 km leið og tjaldað í snjó. Hugrakkir baða sig í heitum læk um kvöldið áður en gengið er til náða! 5 km ganga daginn eftir. Verð : 21.000/24.000. Innifalið : Kennsla, verklegar æfingar og fararstjórn. N3 Vetrarfjallamennska 31. janúar -2. febrúar. 3 dagar Leiðbeinandi : Sigurður Bjarki Ólafsson. Kennt : Bóklegt 31. janúar kl. 19-22 í risi FÍ, Mörkinni 6 og verklegt 1.-2. febrúar kl. 9-17. Langt helgarnámskeið þar sem kennd eru grunnatriði í ferðalögum um fjalllendi að vetri til, hvernig á að bera sig að og nota ísöxi og brodda ásamt helstu snjótryggingum. Einnig er fjallað um helstu hættur, hvernig á að lesa landslag og vera meðvitaður um umhverfið, þekkja snjóflóðahættur og hvernig á að bjarga fólki úr snjóflóðum. Námskeiðið hefst innandyra á bóklegum fyrirlestrum og æfingum áður en haldið er til fjalla í verklegar æfingar. Þátttakendur þurfa að koma með ísöxi, mannbrodda, klifurbelti, hjálm, skóflu, snjóflóðaýli, snjóflóðastöng, sigtól, prússíklykkju og 2-3 læstar karabínur. Verð : 65.000/70.000. Innifalið : Bók um fjallamennsku, kennsla og verklegar æfingar. 21
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==