Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2020
DAGSFERÐIR HÁLENDIÐ D23 Land í hættu: Hagavatn NÝTT 28. júní, sunnudagur Fararstjórn : Sveinn Runólfsson, Ólafur Örn Haraldsson og Tryggvi Felixson. Brottför : Kl. 8 með rútu frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6. Svæðið við Hagavatn er ægifagurt og hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Bæði hafa jökulhlaup mótað og breytt landslaginu og svo bendir ýmislegt til þess að svæðið hafi áður verið algróið og víða þakið birkikjarri. Í þessari dagsferð er svæðið skoðað, hugað að landmótuninni og farið yfir virkjunaráform á svæðinu og hvaða áhrif þau kynnu að hafa á landslag og náttúru en svæðið er í biðflokki í rammaáætlun. Farið er með rútu að Gullfossi og þaðan um svokallaðan línuveg sunnan Langjökuls (F338) að Mosaskarðsfjalli. Hér er víðsýnt og gott að átta sig á náttúrufari og landsháttum. Boðið er upp á styttri og lengri gönguleiðir frá Mosaskarði, yfir göngubrú á Farinu og að skála FÍ við Einifell. Þar bíður rútan sem ekur að Farinu þaðan sem gengið er að Hagavatni við Nýjafoss. Áætluð koma aftur til Reykjavíkur er um kvöldmatarleytið. Fræðslu- og gönguferð í samstarfi við Landvernd. Verð : 15.000/18.000. Innifalið : Rúta og fararstjórn. SUÐURLAND D24 Upplifðu fegurðina að Fjallabaki: Eldri og heldri ferð NÝTT 2. júlí, fimmtudagur Fararstjórn : Pétur Magnússon, Ingimar Einarsson og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir. Brottför : Kl. 8:30 með rútu frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6. Hversu langt er síðan þú komst að syðri hluta Fjallabaks og upplifðir töfra svæðisins? Eða hefur þú kannski aldrei komið þangað en alltaf langað? Þessi ferð er sérstaklega hugsuð fyrir eldri og heldri borgara en allir eru velkomnir. Við heimsækjum nokkra áhugaverða staði sem teljast til syðri hluta Fjallabaks og nágrennis, m.a. skála FÍ við Álftavatn, Hvanngil og Emstrur. Létt ganga fyrir þá sem vilja þar sem kíkt er ofan í hið magnaða Markarfljótsgljúfur sem allir þurfa að sjá að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Harmonikka er með í för og sungið og sagðar sögur; sumar nýjar en aðrar gamlar; sumar sannar en aðrar ekki alveg. Aðalatriðið er að eiga góða og skemmtilega stund saman. Verð : 18.000/21.000. Innifalið : Rúta, hádegismatur, kaffisopi og fararstjórn. NORÐURLAND D25 Glerárdalshringurinn: 24 tindar NÝTT 4. júlí, laugardagur Fararstjórn : Hjalti Björnsson og Haraldur Sigurðarson. Brottför : Kl. 8 frá Skíðastöðum, skíðahótelinu í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Mjög löng og gríðarlega krefjandi fjallganga, þar sem gengið er á einum sólarhring um allan fjallahringinn sem liggur umhverfis Glerárdal í Eyjafirði. Erfiðleikastig þessarar ferðar sprengir öll viðmið og myndi líklegast jafnast á við 6 skó, ef sú skilgreining væri til! Þetta er hæsti hluti Tröllaskagans og farið er upp á og yfir alls 24 tinda á leiðinni, þar af 11 af hundrað hæstu tindum landsins. Heildarvegalengdin er tæplega 45 km og samanlögð hækkun rúmir 4.500 m. Hæsta fjall á leiðinni er Kerling 1.538 m en það lægsta Hlíðarhryggur 1.100 m. Engir göngustígar eru á leiðinni, utan síðustu 6 km, niður af Súlum. Verð : 25.000/28.000. Innifalið : Fararstjórn. Í þessari ferð verður gengið á 11 af hundrað hæstu tindum landsins. Sjá nánar á bls. 19. 35
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==