Kylfingur 2018
I KYLFINGUR I 23 Golfklúbbur Reykjavíkur fór af stað með liðakeppni sumarið 2016. Fyrsta sumarið voru 13 lið með í keppninni og í fyrra voru þau 16 talsins. Eimskipafélag Íslands var styrktaraðili keppninnar sem hlaut nafnið Eimskips bikarinn – liðakeppni GR. Liðakeppni er keppni á milli golfhópa og var um útsláttarkeppni að ræða. Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppninni. Vegleg verðlaun voru í boði Eimskips og voru liðsmenn í tveimur efstu sætum verðlaunaðir. Sigurliðið fékk farandbikar til varðveislu í eitt ár og nafnbótina Bikarmeistarar GR. Í hverri umferð léku 4 leikmenn fyrir hvort lið. Tveir holukeppnisleikir og einn fjórleikur þar sem tveir leikmenn leika saman gegn tveimur úr hinu liðinu og gildir betra skorið á hverri holu hjá hvoru liði. Í þessari keppni voru allir leikirnir leiknir á Korpúlfsstaðavelli og koma liðin sér saman um leikdag innan auglýstra tímamarka. Leiknar voru 9 holur í hverri viðureign. Í úrslitaleik keppninnar voru leikirnir stærri og keppendur fleiri. Hver viðureign í úrslitaleiknum var 18 holur. Átta leikmenn léku fyrir hvort lið, 6 tvímenningsleiki og einn fjórmenning, en þar léku tveir menn saman úr hvoru liði og léku samherjarnir einum bolta til skiptis. Margar skemmtilegar viðureignir voru í þessari keppni og myndaðist góð stemming. Eftir marga leikina settust liðin saman inni í golfskála fögnuðu að leikslokum góðri keppni, hvernig svo sem úrslit leiksins urðu. Þetta fyrirkomulag er ólíkt flestu sem kylfingar kynnast og þá sérstaklega þar sem keppendur eru hluti af liði, sem ekki er algengt í golfi. Þetta eru því tækifæri til þess að taka þátt í sveitakeppni í golfi og keppa við aðra keppendur en vanalega. Margar viðureignir voru mjög spennandi og þar sem leikið var með forgjöf þá er það dagsformið miðað við forgjöf sem ræður úrslitum. Fyrsta árið voru eingöngu karlalið í keppninni. Í fyrra voru tvo lið skipuð konum, en það voru Kötlur og Hola í höggi. Þessi tvö lið slógu út úrslita liðin frá því 2016, Kötlurnar unnu Torfuna sem varð í öðru sæti árið áður og Hola í höggi vann meistaraliðið GoldBond. Í undanúrslitum léku Hola í höggi gegn FORE (A lið) annars vegar og hins vegar voru það Faxar sem léku gegn eldra liði Elítunnar eða Elítan Senior eins og þeir kölluðu sig. Úrslitaleikurinn var mjög spennandi og skemmtilegur. Til úrslita léku golfhóparnir FORE (A lið) og Faxar og mikil spenna var í úrslitaleiknum. Fjórmenningsleikurinn endaði þannig að jafnt var með liðunum eftir 18 holur þar sem lokapúttið af 8 metra færi í niðurhalla fór í holu til þess að jafna leikinn. Í tvímenningnum unnu hvort liðið þrjá leiki. Grípa þurfti til bráðabana þannig að einn leikmaður úr hvoru liði lék 10. holuna á Korpúlfsstaðavelli og fór bráðabaninn þannig að Faxar höfðu betur og bera titilinn Liðameistarar GR 2017. Atli Þorvaldsson. EIMSKIPS BIKARINN LIÐAKEPPNI GR Lið Faxa, Bikarmeistarar GR 2017. Faxar höfðu betur gegn liðinu FORE, hér að neðan, í hörkuleik og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==