Aldarspegill - Samtal við Guðmund Hannesson
47 Í grein sem birtist í Skírni árið 1926 er viðfangsefni Guðmundar húsakynni á Norðurlöndum að fornu og nýju, einkum híbýli í sveitum Noregs og Svíþjóðar. Hann ber þróun húsagerðar í þessum löndum saman við stöðu mála á Íslandi og verður tíðrætt um „gelgjuskeiðið“ í öllu sem að byggingum lýtur eftir að ný efni komu til sögunnar og þjóðin snéri baki við rótgróinni hefð gömlu sveitabæjanna. „...nýju steinhúsin í kauptúnum og sveitum [séu] víða ljót og leið, með ljótu útliti, óhentugu og ljótu skipulagi og þar á ofan illa bygð.“ Þetta þjóðarólán megi ekki viðgangast og vitnar Guðmundur í því sambandi til orða Goethe: „Vitleysur mega menn gera, en þeir mega ekki byggja þær!“ 51 Hann telur Norðmönnum og Svíum hafa reynst vel að fylgja semmest fornum siðum í byggingarlagi nýrra húsa en hefur efasemdir um að skapa megi fagran og þjóðlegan byggingarstíl upp úr gömlu íslensku bæjunum, sem hafi verið börn síns tíma og mótaðir eftir því efni sem þeir voru byggðir úr, sem henti illa til húsbygginga í takt við kröfur nýrra tíma. 52 Í fyrsta hluta ritsins Nokkrir þættir um heilsufræði sem út kom 1930 fjallar Guðmundur Hannesson í ítarlegu máli um allt er varðar húsakynni frá sjónarhóli heilsufræðinnar. Í kafla um híbýlastærð og herbergjaskipan birtir hann teikningar af ýmsum gerðum sambyggðra húsa með litlum íbúðum, meðal annars tillögur eftir húsameistarana Guðmund H. Þorláks son og Einar Erlendsson, auk hliðstæðra dæma frá Englandi og Þýska landi. 53 Yfirlitsrit um húsagerðarsögu Undir lok ævi sinnar ritaði Guðmundur Hannesson sína merkustu grein um íslenska byggingarsögu, yfirlit um þróun húsagerðar frá upphafi vega til samtímans, alls 317 blaðsíður með myndum. Textinn var inngangskafli í Iðnsögu Íslands , sem út kom 1942 og Guðmundur Finnbogason ritstýrði. Var ritgerð Guðmundar sú lengsta og yfirgripsmesta í bókinni. 54 Sama ár og Iðnsagan kom út var ritgerð Guðmundar gefin út sem sjálfstæð bók með titlinum Húsagerð á Íslandi . Hliðstætt yfirlit hafði ekki verið tekið saman áður. Hér var um mikilvægt brautryðjendaverk að ræða sem átti eftir að móta skrif seinni tíðar manna um íslenska byggingarsögu. Þar birtust í fyrsta sinn mikilvægar og áður óskráðar upplýsingar. Þetta á sérstaklega við um tímabilið sem Guðmundur þekkti best af eigin raun, frá 1890 og fram að seinni heimsstyrjöld, sem kalla má helsta umbreyt ingaskeið íslenskrar byggingarsögu. Heimildir sínar um efni og aðferðir hafði Guðmundur frá fyrstu hendi og náði þannig að festa á blað frásagnir eldri iðnaðarmanna sem ella hefðu glatast.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==