Engin venjuleg verslun - Fyrsti hluti
Inngangur Hildigunnur Ólafsdóttir, Sumarliði R. Ísleifsson og Sverrir Jakobsson Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er án efa eitt þekkt- asta og sérstæðasta fyrirtæki landsins. Frá stofnun 1922 (lög nr. 62/1921) hefur það verið nánast eini aðilinn, fyrir utan veitingastaði og seinna fríhöfn, sem hefur haft heimild til að selja almenningi áfengi. Verslunin hefur líka verið í þeirri sérkennilegu stöðu að um leið og hún er mikilvæg tekjulind eiganda síns, hefur eigandinn haft það sem yfirlýst markmið að sem minnst seljist af söluvöru hennar. Löngum hefur staðið styr um fyrirtækið. Neytendur áfengis fögnuðu tilkomu þess en andstæðingar áfengis litu lengi á það sem fulltrúa hins illa, í besta falli sem illa nauðsyn. Það var því bæði illa séð og eftirsótt. Lengi hefur verið deilt um það hvernig eigi að selja áfengi. Bar- áttumenn gegn áfengi töpuðu slagnum þegar áfengis- sala var leyfð að nýju eftir bannárin. Þeir töldu því að mikilvægt væri að halda ríkiseinkasölu fremur en að heimila sölu á áfengi í almennum verslunum. Síðustu ár hefur þetta sjónarmið fengið öflugan stuðning með þeim rökum að ríkiseinkasalan sé ekki síður þýð- ingarmikil fyrir lýðheilsu en sem tekjulind ríkisins. Á hinn bóginn hefur þeim röddum fjölgað sem álíta að fyrirtækið hafi runnið sitt skeið. Óþarfi sé að hafa ríkiseinkasölu á vöru sem sé almenn neysluvara og treysta eigi viðskiptalífinu til að sjá um sölu á áfengi. Áfengi hefur þó þá sérstöðu að það er vímuefni og að mörgu leyti skylt öðrum slíkum sem hafa löngum ýmist verið bönnuð eða sala þeirra háð takmörk- unum. Flestir munu því vera á þeirri skoðun að rétt sé að hafa einhverjar takmarkanir á sölu áfengis − og raunar tóbaks líka sem einnig er viðfangsefni þessa verks. Þær takmarkanir varða m.a. aldur viðskipta- vina, auglýsingar og heilsuvernd. Áfengi og sögu áfengismála má kanna út frá marg- víslegum sjónarhornum. Rannsókn á sögu Áfengis- og tóbaksverslunar ríksins býður því upp á marga mögu- leika. Hvaða leið sem valin er, hlýtur hún þó að vera samfélagssaga: áfengisverslunin hefur verið við lýði í næstum heila öld, áfengið snertir heimili og daglegt líf, skemmtanalíf, afkomu fólks og fyrirtækja og hins opinbera. Saga Áfengisverslunarinnar tengist í ríkum mæli hugmyndum um frelsi í atvinnurekstri og raunar í lífinu yfirleitt, um frjálslyndi og stjórnlyndi, boð og bönn, samskipti karla og kvenna og kynjasögu, vald og valdaleysi. Þessi saga fjallar líka um samtakamátt og styrk félagshreyfinga og hún tengist náið þjóðarí- myndum og sjálfsvitund fólks, svo taldir séu nokkrir mikilvægir þættir sem tengjast sögu áfengismála. Í þessu riti er sögunni skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um það samfélagslega umhverfi sem fyrirtækið sjálft er sprottið úr og er sá hluti því hugar- fars- og hugmyndasaga þar sem fjallað er um afstöðu til áfengis og viðhorf þeirra sem láta sig þetta efni varða. Þeirri sögu sem sögð er hér vindur þó vitaskuld þannig fram að fyrirtækið, ÁTVR og forverar þess, mynda uppistöður frásagnarinnar. Bindindishreyfingin hlýtur að verða gerð að umtalsefni, enda var hún einn helsti gerandi í þess- um málum á ofanverðri 19. öld og stóran hluta 20. aldar og hafði sterk ítök í stjórnkerfinu. Lengst af var bindindisbaráttan borin uppi af frjálsum félagasam- tökum en á fjórða áratug 20. aldar varð þetta einnig verkefni stjórnskipaðra nefnda þó að bindindishreyf- ingin starfaði áfram. Hér er margt að kanna, ekki síst hvernig stóð á einstæðum árangri hérlendrar bind- indishreyfingar. 11
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==