Bláhver 2021

2 BLÁHVER JÓLABLAÐ 2021 LEIÐARI Við höfum á síðustu vikum eða frá því að Alþingiskosningar fóru fram í lok september, líklega öll beðið spennt eftir að fá að sjá niður­ stöður undirbúnings kjörnefndar vegna klúður­ sins sem átti sér stað í norðvesturkjördæmi og hvernig Alþingi myndi klára það mál. Við höfum síðan kannski ekki verið síður spennt yfir að fá að sjá hvernig þremenningar, og þá er ég ekki að tala um Ölmu, Víði og Þórólf heldur Bjarna, Katrínu og Sigurð Inga myndu stilla upp nýrri ríkisstjórn og hvað kæmi eiginlega fram í þessum stjórnarsáttmála sem þau höfðu unnið að í átta vikur. Við Hvergerðingar og í raun fólk alls staðar í Suðurkjördæmi urðum fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ný ríkisstjórn var kynnt til sögunnar og Hvergerðingurinn og oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi var ekki á listanum, fyrr en eftir reyndar að há­ marki 18 mánuði, eins skrýtið og það nú er. Enn og aftur var gengið fram hjá Sjálfstæðis­ mönnum í Suðurkjördæmi, einu sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á landinu. Það má þó horfa á björtu hliðarnar, því nú eigum við Hvergerð­ ingar í fyrsta sinn í mjög langan tíma flottan og öflugan þingmann og vonandi verðandi ráð­ herra. Framundan eru síðan næstu kosningar, sveitarstjórnarkosningar, og því verða fram­ boðin í Hveragerði eflaust mun sýnilegri á næstu mánuðum en þau hafa kannski verið síðustu fjögur ár. Kosningarnar fara að þessu sinni fram 14. maí en ekki í lok maí líkt og tíðkast hefur. Eftir áramót munu framboð fara að kynna framboðslista og síðan áherslumál sín fyrir næstu fjögur ár. Við munum að öllum líkindum sjá ný nöfn og andlit á listum fram­ boðanna og hver veit nema að ný framboð bjóði fram. Að vera í bæjarstjórn er afskaplega skemmtilegt og gefandi starf, en þó á tíðum getur það verið erfitt. Þú færð tækifæri til að kynnast íbúum bæjarins og taka þátt í að gera nærsamfélagið betra. Það er á allan hátt lær­ dómsríkt að vera kjörinn fulltrúi og ég hvet alla þá sem áhuga hafa á að taka þátt. Í næstu sveitarstjórnarkosningum leggjum við í meirihlutanum í bæjarstjórn verk okkar á kjörtímabilinu í dóm kjósenda. Margt hefur áunnist og verið gert á síðustu fjórum árum og mörg spennandi verkefni eru framundan sem gaman verður að fylgjast með verða að veru­ leika. Vinsældir Hveragerðisbæjar hafa aldrei verið meiri og á sér líklega margar skýringar og ein helsta ástæðan er líklega sú að hér er ein­ faldlega gott að búa. Nú þegar árið 2022 er á næsta leiti nálgast fjöldi íbúa í Hveragerði 3.000 manns og því lík­ lega fjöldi nýrra Hvergerðinga að fá Bláhver inn um lúguna hjá sér í fyrsta sinn. Ég býð ykkur velkomin í Hveragerði. Blað Bláhvers á sér langa sögu, Sjálfstæðisfélag Hveragerðis hefur í yfir 20 ár gefið blaðið út, sem upphaflega hét BS Hvergerðingur. Blaðið var um sinn gefið reglulega út, en í dag er það einna helst gefið út í kringum kosningar og svo þetta blað, hið árlega Jólablað Bláhvers. Ég óska að lokum, fyrir hönd Sjálfstæðis­ félagsins í Hveragerði, lesendum Bláhvers, Hvergerðingum og landsmönnum öllum gleðilegrar jólahátíðar og hamingjuríks nýs árs. Friðrik Sigurbjörnsson Forseti bæjarstjórnar Takk elsku mamma fyrir jólin! Ég var spurð að því nýlega hver væri mín besta jólaminning. Ég svaraði eftir stutta umhugsun að það væri jólahátíðleikinn hennar mömmu. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar ég hugsa til baka að þá er mestur hlutinn af jóla­ haldinu tengdur mömmu. Fyrsta verk mömmu var að setja upp aðventukrans sem var gömul gjörð af síldartunnu sem mamma vafði borða utan um og festi kerti á. Ekki flókið, ekki dýrt en stóð algerlega fyrir sínu. Síðan hófst bakstur, margar sortir af smákökum og alltaf tvær teg­ undir af lagtertum. Mamma vildi að við systk­ inin, öll fjögur, fengjum nýjar flíkur fyrir jólin og þær voru allar heimasaumaðar af mömmu! Það merkilega er að ég man varla eftir því að hún hafi setið við saumaskapinn enda ekki von því hún sat við saumaskapinn eftir að við krakkarnir vorum komin í háttinn semsagt seint á kvöldin og nóttunni. Á mínu æsku­ heimili var húsið og jólatréð skreytt á Þorláks­ messu. Það gerðum við systkinin með mömmu og á meðan mallaði hangikjötið á eldavélinni. Svo var farið í jólabaðið og enn get ég kallað fram stundina þegar við skriðum í bólin okkar á Þorláksmessukvöld og það brakaði í hreinum rúmfötunum. Eftirvæntingin var alger og mikið hlakkaði manni til að vakna og geta horft á barnatíma í sjónvarpinu fyrir hádegi en í þá daga var þetta eini dagur ársins þegar sjón­ varpað var barnaefni á morgnana. Nú gæti einhver haldið að mamma hafi verið einstæð móðir miðað við lýsingarnar en það var nú al­ deilis ekki en pabbi stóð vaktina frá morgni til kvölds enda mikil íssala í desember. Eftir að ég fullorðnaðist hef ég oft leitt hug­ ann að því hvernig mamma fór eiginlega að þessu! Mikið hlýtur hún að hafa verið þreytt á stundum. Því segi ég takk mamma mín! Ég held og vona að við flest eigum hlýjar minningar úr æsku þar sem mæður og feður koma við sögu. Árið í mínu lífi hefur heldur betur verið við­ burðarríkt. Mig langar að lokumað þakka Hver­ gerðingum fyrir alla hvatningu og stuðning á árinu. Það er magnað að tilheyra samfélagi sem er jafn styðjandi. Ég ætla svo sannarlega að gera allt sem í mínu valdi stendur til að þjóna Suðurkjördæmi vel sem og landinu öllu. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári. Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður.

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==