Aldarspegill - Samtal við Guðmund Hannesson

26 Niðurlag Í upphafi þessa kafla var lagt upp með spurninguna um það hvort mótast hafi eitthvað sem kalla megi íslenskan bæjarbrag – íslensk bæjarmynd og byggðamynstur – á þeirri einu öld sem segja má að þéttbýlismyndun hafi staðið hér á landi. Eins hvort þar megi bera kennsl á skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Enn skal tekið fram að hér hefur eingöngu verið tækifæri til að tipla á yfirborði þessa viðfangsefnis og fullt tilefni er til að leggja í dýpri og umfangsmeiri greiningu á þróun bæjarbrags íslenskra bæja og áhrifa­ völdum hans. Kannski er yfirhöfuð ekki rétt að setja fram spurningu um það hvort til staðar sé íslenskur bæjarbragur, heldur ætti frekar að leita eftir hver hann er. Öll vitum við sem lifum og hrærumst í íslensku umhverfi að það eru til staðar einhver sérkenni sem greina íslenska bæi frá þéttbýlisstöðum í öðrum löndum. Um leið eru einnig ýmis einkenni í íslenskum bæjum sem helgast af tíðarandaogalþjóðlegumstraumumogstefnumí skipulagsgerð og hönnun á hverjum tíma. Um slíkt má gjarnan finna sterka samsvörun milli landa. Spurningin kann þá að snúast um það hvort sé sterkara í bæjarmyndinni, einhver greinanlegur íslenskur þráður eða alþjóðlegar áherslur sem ráðið hafa för á ákveðnum tímaskeiðum. Þar ræður sennilega miklu hvað við­ komandi þéttbýlisstaður á sér langa sögu og hver hafa verið hans helstu vaxtarskeið; svo sem hvort náðst hefur að byggjast upp bæjarkjarni og staðbundið tungutak um bæjarmyndina, áður en hin sterku alþjóðlegu áhrif módernismans og bílvæðingar komu til um miðja 20. öldina. Þá setur sterkan svip á bæjarmynd margra íslenskra bæja sá mikli vöxtur og uppbygging sem varð víða á 8. áratugnum og fram á þann níunda sem meðal annars má tengja útvíkkun landhelginnar, skuttogaravæðingunni og opinberum fjárfestingum í þjónustustofnunum víða um land. Skipulag fylgir straumum og stefnum á hverjum tíma. Það sem kann að hafa mest áhrif á yfirbragð bæjanna er á hvaða tímabili þeir hafa vaxið mest. Íslenskir bæir eru ungir, mun yngri en þéttbýlismyndun í nágrannalöndum okkar. Við höfum því haft mun styttri tíma til að þróa tungutak um bæjarmyndina. Inn í þennan veruleika stígur Guðmundur Hannesson í byrjun 20. aldar og leggur til heildstæða „orðabók“ um það sem hann telur að eigi að verða tungutak og áherslur í íslensku bæjarskipulagi og móta íslenskan bæjarbrag til framtíðar.

RkJQdWJsaXNoZXIy NjgxMQ==